Knitter from Iceland

Rakel

Frá árinu 2006 hef ég verið að prjóna og nánast eingöngu lopapeysur.

Í byrjun árs lenti ég í burnouti og langaði að prjóna, en fann að ég átti erfitt með að velja hvaða uppskriftir mig langaði að prjóna, svo ég ákvað að prufa að gera mín eigin munstur.

Peysurnar mínar fengu rosalega góð viðbrögð á Instagram svo mig langaði að halda áfram að hanna munstur og ákvað að gera munstur með öllum 12 stjörnumerkjunum. Ástæðan fyrir því að sú hugmynd kom upp var að mér fannst svo erfitt að finna nafn á peysurnar og langaði að gera eitthvað sem myndi bara heita það sem það er. Ég hef ekki séð neinar stjörnumerkja peysur áður svo mér fannst þetta fullkomin hugmynd. Þannig varð hugmyndin af stjörnumerkja peysunum til.

Ég ólst upp í sveit á Suðurlandi og hef unnið í ferðamannabransanum síðan 2016. Mér finnst ótrúlega gaman að eiga þátt í að kynna Ísland fyrir ferðamönnum og er stolt af því hvað við eigum fallega náttúru hérna sem og að deila okkar náttúru og menningu með öðrum. Ég er mikið í útivist og líður hvergi eins vel og uppi á fjöllum. Mér finnst íslenska lopapeysan vera ómissandi partur af útivist enda er hún fullkomin flík allan ársins hring hér á Íslandi. 


Instagram reikninginn knitterfromiceland stofnaði ég til að halda utan um það sem ég var að prjóna en svo þróuðust málin hratt út í að ég fór að gera mín eigin munstur. Þá ákvað að hafa Instagram reikninginn minn á ensku til að ná til sem flestra, en uppskriftirnar mínar eru bæði fáanlegar á íslensku og ensku eins og er en verða fáanlegar á fleiri tungumálum á næstunni. 

Í vinnslu eru fullt af flottum hugmyndum og komin eru nokkur ný munstur, sem ég er að vinna í núna á næstu vikum. Þó svo að það hafi verið ofboðslega erfitt og vont að lenda í burnoutinu að þá kom líka margt jákvætt og skemmtilegt út úr því. Mér hefði aldrei dottið í hug að ég myndi nokkurn tímann hanna og gefa út lopapeysur en mér finnst þetta ótrúlega spennandi og gefandi og hlakka mikið til að halda áfram að hanna og gefa út munstur.

Ég man ennþá hvar ég var heima hjá mér þegar ég sá skilaboðin frá Icewear Garn hvort að ég hefði áhuga á að koma í samstarf með þeim, ég hélt það nú enda er hún uppáhalds garnbúðin mín!

Shopping Cart
Scroll to Top